mánudagur, 28. apríl 2014

Þetta er saga lífs míns..

Hafiði velt fyrir ykkur hversu hrikalega mannskemmandi einelti er?

Það vita ekki margir vinir mínir af minni sögu, en mig langaði bara að skrifa hana niður í eitt skipti fyrir öll. Það kannski hjálpar einhverjum? Hver veit..

Ég byrjaði mína grunnskólagöngu eins & flest önnur börn 6 ára gömul. Spenningurinn að byrja í 1 bekk var rafmagnaður, vægast sagt, mikið sem ég hlakkaði til.
1-2 bekkur gengu stóslysalausir fyrir sig í litla & stóra Myllubakkaskóla í Keflavík.

Sumarið eftir 2. Bekk fluttum við fjölskyldan í Garðinn & hóf ég 3 bekk & eignaðist margar vinkonur þar, lítið bæjarfélag & samheldið á þeim tíma. Ég fékk vinnu við að bera út DV & eignaðist lítinn bróðir & lífið var ósköp auðvelt & skemmtilegt á þessum tíma, byrjaði daginn á að fara í skólann, kom heim, einhverja daga varð ég að bera út & aðra daga fór maður út að leika sér með öllum krökkunum í hverfinu, kom heim í kvöldmat & var rokinn aftur út að leika að útivistartíma, mjöög skemmtilegt.

Eftir 5.bekk flytjum við í Borgarnes & þar byrjar öll vitleysan..
Fyrstu dagana í frímínotum mátti ég, nýja stelpan að sjálfsögðu ekki vera með í neinu.
Stelpurnar görguðu „hættu að elta okkur“ & strákarnir spörkuðu mann niður í fótbolta. Eftir einhverja daga eða vikur, vorum við orðnar 4 vinkonurnar. Það var æði. En aaalltaf voru samt aðrar 3 stelpur, þið vitið þessar „vinsælu“ sem að réðu algjörlega ríkjum & allir gerðu eins & þær vildu, ef ekki, nú þá var voðinn vís.
Þeir sem mig þekkja, vita að ég læt ekki stjórna mér & hef aldrei á ævi minn gert. Kudos á mömmu & pabba fyrir að þola mig ennþá hehe ;) Aaallavega, útaf því að ég vildi ekki gera allt sem þessi þrenning bað um, nú þá var ég auðvitað alveg ömurleg & fengu þær restina af bekknum með sér í lið & lögðu mig í hressilegt einelti, þó var dagamunur á & sumir dagar voru að sjálfsögðu betri en aðrir..

Það var ein fötluð stelpa í bekknum & var ég henni alltaf ótrúlega góð, ef það var hópaverkefni eða annað, þá var ég alltaf útundan & endaði með henni, það var bara í besta lagi. Svo þegar ég heyrði talað um hópaverkefni, þá rölti ég til hennar & við bjuggum til eitthvað algjört meistaraverk, við vorum flottastar. Eeeeen auðvitað fannst hinum það ekki, því ég var að sjálfsögðu alveg klárlega sú hallærislegasta í augunum á þeim að vilja vinna með fötluðu stelpunni. Þau hefðu nú bara átt að gefa sér tíma í að kynnast henni, því hún var & er yndisleg.

Við vorum með 4 kennara, þetta skólaár, já FJÓRA, það höndlaði enginn þennan bekk, ennþá er talað um hversu hroðalegur þessi blessaði bekkur var.
Það kom þarna einn strákur um þrítugt sem að kenndi okkur í einhvern tíma, fínasti strákur.. En afþví að mér fannst hann ekki asnalegur, nú þá var ég auðvitað skotin í honum.. Annað dæmi, við vinkonurnar ákváðum að taka þátt í karoki keppni fyrir 5-7bekk & voru æfingar alltaf eftir skóla, þar var ein af vinsælu píunum að stjórna tónlistinni & vinur hennar með & þau gerðu svo endalaust grín af okkur að við hættum við að taka þátt, mikið sem það var sárt.

Eineltið ágerðist með hverju árinu & í 7.bekk lenti ég í fyrsta ofbeldinu líkamlega..
Það var kynjaskiptur leikfimitími 2x í viku, þá stelpur í íþróttum & strákar í sundi & svo öfugt..
Á leiðinni í 1 svoleiðis íþróttatímann hjá okkur stelpunum þá setti ég skóna mína á einhvern staðinn í skóhillunni frá einni stelpunni? Vissi ekki að maður gæti bara eyrnamerkt sér staði..
& afþví ég svaraði fyrir mig, nú þá réðust þær 3 á mig.. & þegar inn í klefa var komið brotnaði ég niður & þær snéru þessu auðvitað á mig.. & þar við sat..

8 bekkur gekk ágætlega, svona upp & ofan.. Mikill dagamunur & ég átti þarna 2 ágætis vinkonur.. En þær voru frekar með hvor annari en mér, ef önnur þeirra var upptekin, þá var hringt í mig..


Ég var svo á fótboltaæfingum með ákveðnum hóp af stelpum & það voru skemmtilegustu tímarnir í lífi mínu, en einmitt þá, fannst mér vera einhvað í lífinu, í þessi einu skipti 2-3x í viku leið mér eins & ég væri partur af „heildinni“ en ekki þessa ljóta, leiðinlega, hallærislega, í ljótu fötunum, nördinn & hreint út sagt bara ógeðið.

Í 9.bekk komu nýjir krakkar í bekkinn, strákur & stelpa.
Hún flutti hliðiná mér, svo við urðum vinkonur, en það var ekki liðin vika af skólanum & þá var hún kominn í hinn hópinn.. Þau gátu auðvitað ekki gert henni að hanga með mér, ógeðinu.. Við strákurinn náðum vel saman.. En hann náði líka vel saman við restina & einhvernveginn, ég veit ekki alveg hvernig, gat hann látið það virka.. Við byrjum svo saman seinna um veturinn & erum saman í mánuð & á endanum varð ég ein af hópnum, honum & vinum hans, s.s strákunum í bekknum, það var geggjað gaman..
Eitt kvöldið fæ ég sms frá honum þarf sem hann skrifar að hann vilji þetta ekki lengur, sem mér fannst ofsalega spes, því 2 tímum áður, þá fékk ég alveg akkurat öfug sms við það. Korteri seinna fæ ég sms frá einni af „vinsælu“ píunum, í því stendur :
„Hahah, hvað ætlaru að gera núna?“
& ég man svo vel að ég svaraði : „Ég er að spá í að fá mér epli, en þú?“.

Þetta er ofsalega gott dæmi um það hvernig þær voru við mig.
Þær bjuggust ekki við mér í skólann daginn eftir, en auðvitað mætti ég, þær urðu ekkert lítið hissa, en hlógu sig auðvitað í gegnum það & hlógu líka að mér fyrir að vera svona mikill aumingi að hafa látið þær ná honum af mér..
Allt mér að kenna ofc ;)

Daginn eftir það er hann byrjaður með einni af þeim & það var ennþá fyndnara fyrir mig fannst þeim..


Svona gekk þetta fram & til baka þann veturinn.. Endalaust áreiti & nýja stelpan sem kom það ár varð á endanum verst við mig.. Alltaf að henda rusli í töskuna mína, henda rusli í mig.. & vera fyndinn á minn kostnað.. Get ekki lýst því hversu ógeðslega niðurlægjandi þetta var.. Jesús minn, ég fæ ennþá í magann.

Þarna var mér farið að líða virkilega illa & ganga virkilega illa í skólanum, ég sem hafði aldrei haft fyrir því að læra, stóð frammi fyrir því að geta ekki lengur lært, sökum kvíða & eilífs ótta um hvað í andskotanum ég fengi í hausinn næst.

Mér fannst samt orðin sem þau sögðu við mig mest særandi, það var alveg sama hvað ég gerði, ég var alltaf ógeðið, vond lykt af mér & ég var alltaf svo asnaleg & hallærisleg, samt var ég ekkert öðruvísi en þau öll, ekkert verri lykt af mér & fötin mín ekkert öðruvísi, ég skil ekki enn þann dag í dag hvers vegna þau tóku mig fyrir..

En ég átti samt alltaf þessar 2 stelpur þarna sem reyndu eins & þær gátu upp að vissu marki að verja mig, en það var auðvitað ekki vinsælt & stundum lenntu þær í því að vera teknar fyrir & stundum tóku þær mig fyrir, það var allur gangur á þessu.


10. bekkur var martörð frá upphafi til enda.
Klárlega versta tímabil lífs míns.
Ég var stanslaust tekin fyrir, það vildi enginn sitja við hliðiná mér, ég gat hvergi labbað öðruvísi en að fá eitthvað á mig, bókunum mínum var stolið, hellt kókómjólk í töskuna mína, grýtt með grjóti & allskonar sem ég ætla ekki að nefna einu sinni það var svo ljótt. & þarna voru þær orðnar 4 stelpur í broddi fylkingar & restin á eftir þeim eins & andarungar á eftir mömmu sinni.

Þessar 2 stelpur sem voru vinkonur mínar, ákváðu svo að snúast á móti mér eftir að hafa planað með sér að fá mig til að tala illa um þær báðar, við þær báðar.. Svo nú stóð ég alein á móti restinni & var rifinn niður hvar sem ég var.
 Það kom að vísu ný stelpa í A-bekkinn & við vorum saman þegar við gátum, hún var & er æðisleg.

Ég var mikið í hestunum með pabba mínum á þessum tíma, svo að eftir skóla lét ég mig hverfa uppí hesthús & var þar fram að svefntíma..
En nei, þá var hestalykt af mér, sem var bara helvítis kjaftæði.


Á endanum er einn strákurinn tekinn fyrir líka & við verðum vinir, lærðum alltaf saman, sátum saman & vorum alltaf 2 saman..
Enduðum sem par & er mér sérstaklega minnistætt eitt atvik þar sem við löbbum saman inní Hyrnuna, sjoppu í Borgarnesi & mætum þar bekkjarbróðir okkar sem þá var formaður nemendafélagsins, já takið eftir því.. & hann segir við þáverandi kærastann minn :
„Hva, viltu ekki drífa þig heim að ríða ógeðinu?“
& í þann mund, labbar æskulíðsfulltrúinn framhjá & heyrir þetta & hvað haldiði að maðurinn hafi gert? Klappar á öxlina á bekkjarbróðurnum & labbar í burtu..

Gott dæmi um að fullorðna fólkið var orðið meðvirkt því að ég væri bara algjört ógeð.

Eitt skipti var haldinn foreldrafundur vegna þess hversu slæmt þetta var orðið & mamma nefnir að það verði nú að fara að gera eitthvað í þessu & þá segir móðir annarar stelpunnar sem var vinkona mín :
„Mér finnst alltílagi að Sandra sé lögð í einelti, þá fær mín stelpa frið“
& þar við sat, enginn sagði neitt, kennararnir voru farnir að taka þátt í þessu, undan pressu frá samnemendum mínum & ég hætti að mæta í skólann á endanum, fór að drekka & reykja & flosna uppúr öllu sem telja mátti eðlilegt. Mætti illa í vinnuna & hagaði mér eins & fífl & hætti t.d. með stráknum.


Í þau skipti sem ég mætti í skólann, varð ég að sitja við hurðina, svo ég væri enga stund að hlaupa út ef einhver ætlaði í mig.. Sat auðvitað ein, því enginn vildi sitja með mér..


Í eitt skipti í íþróttum fæ ég svo alveg nóg & missi stjórn á mér & kalla stelpuna sem var verst við mig mjög ljótu orði sem hún samt heyrði ekki..
Þegar við vorum komnar í skólann aftur & vinkonur hennar búnar að segja henni hvað ógeðið ég hafði sagt, þá mundar hún sig við að berja mig með kústinum, en í þann mund labbar eini kennarinn sem stóð með mér, inn & grípur inní..
Við vorum sendar til skólastjórans & áttum að takast í hendur, GLÆTAN, ég var ekki að fara að taka í hendina á stelpunni sem var búin að fá alla til að kalla mig lessu af því að ég átti að hafa horft á rassinn á henni..
Ég sagðist frekar vilja sitja þarna að eilífu, ég fengi allavega frið..


Eftir þetta mætti ég ekki meira, ég mætti í samrænduprófin, var í vinnu, svo ég fór ekki í starfsþjálfun & var ekki einu sinni boðið með í útskrifarferðina.
Mætti svo bara & sótti einkunnirnar mínar, féll í öllu nema einu & ég man ekki einu sinni hvað það var.


Allt þetta tímabil er dáldið mikið í þoku, ég gæti skrifað endalaus dæmi í viðbót en það yrði efni í 300bls bók.

Ég fékk aldrei frið, stanslaus sms, hróp & köll útí búð, allstaðar þar sem ég var.

Ef ég mætti þessum stelpum á balli þá urðu slagsmál, þær eyðilöggðu alla vinskapi sem ég eignaðist & svo framvegis.

Þetta gekk það langt að ég varð að hætta í framhaldskóla líka vegna hótanna um kjálkabrot & ég fékk morðhótun líka.

Árið 2007 er síðan haldið reunion & ég ætlaði ekki að mæta, hafði einfaldlega ekki áhuga á því að láta drepa mig með orðum & ofbeldi einu sinni enn, en ég var komin á gott ról þarna, átti alveg nokkra vini & hafði það svona ágætt miðað við allt saman.
Kvöldið sem reunionið er, fær vinur minn símtal, þá er það stelpan sem kom í 9unda bekk, að biðja hann um að koma með mig uppeftir, því hún þyrfti að tala við mig..

Ég ákvað að skella mér.. & þegar ég stend uppúr bílnum, stendur hún fyrir utan hágrátandi, undir áhrifum áfengis. Hún tekur í báðar hendurnar á mér & biður mig afsökunar..
Hún væri búin að bögglast með þetta lengi..
Hún hefði tekið áfanga í uppeldisfræði & þar kom einelti við sögu & hún hefði kveikt á perunni..

Ég sagðist fyrirgefa henni, en ég gæti aldrei gleymt þessu, því hún hefði verið partur af því að eyðileggja fyrir mér skólagönguna & æskuna mína..

Ég ákveð að labba inn í húsið þar sem restin af fólkinu var & þar taka fleiri á móti mér með handabandi & faðmlögum & afsökunarbeiðnum..
Kemur svo ekki önnur stelpan sem var vinkona mín þarna þangað til í 10.bekk & segir við stelpuna sem grét úti :
„Mannstu xxxxx þegar þú henntir í hana kókómjólkinni & jógúrtinni?“
& skellihló svo.. Hætti svo að hlægja þegar hún fattaði að hún væri ekkert fyndin.. Enda horfðum við báðar á hana mjög hissa..


Ég fer svo bara, enda fannst mér ég ekki hafa neitt að gera þarna, ég hafði svosem ekkert við þetta fólk að hafast, þau rændu mig æskunni & þeim fannst það ekkert stórmál, enda búin að segja fyrirgefðu, þetta hlyti að vera gleymt..

Þetta er svona "mín saga"
Það eru auðvitað óteljandi hlutir sem koma ekki fram. & margt sem ég man allsekki & langar ekkert að muna & margt sem að er of gróft til að tala um.


En það sem fékk mig til að hugsa árið 2006 & enda ekki líf mitt var örvænting móður minnar sem gerði lokatilraun til að hjálpa mér, en hún var búin að fara óteljandi ferðir niðrí skóla.. En ekkert gekk, því vandamálið var ég fannst öllum..

Mamma s.s hringir í Stefán Karl sem stofnaði Regnbogabörn, eineltisssamtök, eftir að ég brotna niður, en ég hafði sagt við mömmu að ég sjái enga aðra leið útúr þessu en að láta mig hverfa, ég væri bara byrði í samfélaginu, öllum þætti ég ógeðsleg & þeim hlyti þá bara að finnast það líka..
Sama morgunn & mamma hringir í Stefán Karl, synnti ung stúlka, jafngömul & mér á haf út & kom aldrei til baka. Það var ofsalega sjokk.
Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég ætti þetta ekki skilið, þetta væri ekki mér að kenna & ég gæti lítið gert annað en að bera höfuðið hátt & hugsa að þetta hlyti að ganga yfir einhvern daginn.

Verst þótti mér bara að litli bróðir minn var tekinn fyrir, fyrir það eitt að vera bróðir minn, en það datt svo uppfyrir.

Mig langar að opna þessa umræðu, vegna þess að þögnin er versti óvinur manns, maður er ekki einn..
Það eru alltaf bjartari dagar framundan.. & það er alltaf einhver sem elskar mann.. 

Þetta var klárlega erfiðasta lífsreynsla sem ég hef þurft að díla við.. En ég væri ekki sú sem ég er í dag ef ég hefði ekki lent í þessu..
Ég er ekki reið útí þetta fólk, þau eiga alla mína samúð..
Þeim hlítur að hafa liðið mjög illa & þurft að upphefja sjálf sig með því að ráðast á mig.

Í dag er ég búin að fyrirgefa þeim & á ekkert sökótt við þau. 


Ég er líka búin að gera mér grein fyrir því að vandamálið liggur oftar en ekki hjá foreldrunum, þá meina ég að :
Það þarf að TALA við börnin sín.
Það þarf að FRÆÐA börnin sín um afleiðingar eineltis..
Það þarf að taka markvisst á vandanum.. Ekki bara sópa því undir teppið..
Foreldrar þurfa að taka ábyrgð & viðurkenna að börnin sín séu annaðhvort gerendur eða þolendur.


Ég vona að ég hafi hjálpað einhverjum með því að segja mína sögu, það eru 9 ár síðan ég kláraði Grunnskólann & í dag 28 apríl 2014 er ég tilbúinn til að segja mína sögu.
Það er aldrei of seint.
Þó ég hafi ekki hjálpað nema einni manneskju á þessu, þá er það sigur fyrir mig.


Ef það er einhver þarna úti sem að líður illa & er að díla við það sama, þá er ég til staðar & viðkomandi getur haft samband HÉR. Takk fyrir mig.
   

1 ummæli:

anna lóa barðadóttir sagði...

Þú ert yndi og algjör hetja að þora að segja frá, því það er ekki auðvelt. Yndisleg stelpa í alla staði og gerðir helling gott fyrir mig í Borgarnesi sem gaf mér von, keep up the good work :))